Hæfniviðmið

Þróunarverkefnið Vitundin á Menntasviði Kópavogsbæjar vann árin 2023 – 2025 að leiðbeinandi hæfniviðmiðum fyrir skólanámskrá í stafrænni borgaravitund. Miðstöð menntunar og skólaþróunar vann á sama tíma að endurskoðun greinasviða. Stafræn borgaravitund er nú einn þáttur greinasviðs í upplýsinga- og tæknimennt þar sem segir m.a. að leggja þurfi áherslu á námsgreinina sem þverfaglegt námssvið þar sem raunhæf viðfangsefni eru samþætt inn í flestar námsgreinar og námssvið. Verkefnið er unnið í samstarfi við kennara og nemendur í Kópavogi og Langholtsskóla sem hafa ígrundað hvað mikilvægt er að fræða um á hverju aldursstigi og með hvaða hætti best er að vinna með námsefnið.

Auk nýrra hæfniviðmiða aðalnámskrár grunnskóla tók Vitundin, skólaþróunarverkefnið, mið af kennsluáætlun, námsefni og námsmarkmiðum frá Common Sense for Education sem aðlaga má að skólanámskrá skóla. Jafnframt var tekið mið af hæfniviðmiðum samstarfsnets Evrópuráðs um stafræna borgaravitund sem samstarfshópur Vitundar tók þátt í að móta og gefin voru út vorið 2025.
Niðurstaða samstarfshópsins eftir að hafa borið saman þessi þrjú megin viðfangsefni var að fylgja áætlun og efnistökum Common Sense Media í grunninn sem að mestu fellur vel að fyrrgreindum viðmiðum aðalnámskrár grunnskóla og ramma samstarfsnets Evrópuráðs.

Verkefninu er hvergi nærri lokið þar sem stuðningsefni með námsmarkmiðum aðalnámskrár grunnskóla mun líta dagsins ljós á næstunni. Auk þess verður íslenskt námsefni í stafrænni borgaravitund og kennsluhugmyndir frá fleiri útgefendum tengt við aldurshópa hér á vefnum sem og útgefin viðmið aðalnámskrár og samstarfsnets Evrópuráðs.

Hér er heildaryfirlit yfir allt þýtt námsefni Common Sense Education.

Þar er gert ráð fyrir einni kennslustund fyrir hverja stoð í hverjum aldurshópi eftir bekk. Skjalið er ætlað kennurum og leiðbeinendum frístunda til að:

  • glöggva sig betur á efnistökum í hverjum árgangi,
  • velja námsstoð sem tengist ákveðnu þema,
  • nýta fyrir uppsetningu á skólanámskrá.


Möguleiki er fyrir skóla að nýta sér efnið þvert á árganga. Jafnframt getur skóli valið að kenna námsefni 3. bekkjar í 2. bekk eða öfugt allt eftir áherslum í skólanámskrá. Skjalið er unnið eftir fyrirmynd frá Common Sense Education.
Vorið 2025 endurskoðaði Common Sense námskrá sína allt frá leikskóla til 8. bekkjar og verður nýja útgáfa þeirra höfð til hliðsjónar í uppfærslum á vef Vitundar.